"Íslenski markaðurinn er of lítill fyrir stórhuga fyrirtæki," segir Guðni B. Guðnason framkvæmdastjóri ANZA í nýju fréttabréfi félagsins en þar kemur fram að stjórn ANZA hefur markað þá stefnu að hefja undirbúning að útrás félagsins í byrjun árs 2005. Megin áhersla ANZA á nýju ári verður þó að bæta enn þjónustu við núverandi viðskiptavini.

Í fréttabréfinu segir Guðni að viðskiptalífið á Íslandi sé að taka algjörum stakkaskiptum, íslensk fyrirtæki hasli sér völl á erlendum vettvangi, fyrirtæki sameinist, stækki og styrkist og séu þannig betur undirbúin fyrir útrásina. "Samkeppnin á erlendum mörkuðum er hörð og oft óvægin," segir hann. "Íslensk fyrirtæki verða að geta sinnt hinum litla íslenska markaði áður en haldið er á vit nýrra ævintýra."

Fram kemur að mikil undirbúningsvinna hafi verið unnin sem miði að því að endurbæta þjónustuferla ANZA og gera þá eins og þeir best gerast á alþjóðamarkaði. Guðni segir að ANZA hyggist fjárfesta enn frekar í þekkingu og uppbyggingu í þessu skyni með það að markmiði að standa framar öðrum fyrirtækjum á sviði upplýsingatækni í samkeppni á alþjóðamörkuðum.

Að sögn Guðna lítur út fyrir að afkoma ANZA á yfirstandandi ári verði góð og hann segir að ný verkefni hafi sjaldan verið fleiri.