Óhætt er að segja að ferðamannatíðin hafi gírað reksturinn hjá N1 upp eftir erfiða byrjun á árinu. Félagið hagnaðist um 483 milljónir króna, samanborið við 82 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Á fyrsta ársfjórðungi félagsins skilaði félagið 86 milljóna króna tapi sem skýrist aðallega af minni umsvifum í sjávarútvegi og á einstaklingsmarkaði.

Greiningaraðilar voru því ekki bjartsýnir á að félagið myndi ná markmiði sínu um að EBITDA yrði 2,6 milljarðar króna fyrir árið og 27,4% af framlegð. Arion banki spáði að félagið myndi hagnast um 144 milljónir á 2. ársfjórðungi. Hagnaður félagsins var rúmlega þrefalt hærri en sú spá gaf til kynna og skipti þá máli að umferð um helstu vegi landsins jókst um nærri 9% á fjórðungnum miðað við sama tíma í fyrra.

Í viðbrögðum Arion banka við uppgjörinu kom fram að krónan hefði verið 6% sterkari á fjórðungnum og heimsmarkaðsverð á olíu 6% hærra en á sama tímabili í fyrra. „Uppgjörið var betra en við áttum von á, bæði tekjur og kostnaðarliðir. Framlegð hækkaði í samanburði við annan ársfjórðung í fyrra, en afkoma félagsins var undir væntingum á sama tímabili í fyrra,“ segir Elvar Ingi Möller hjá greiningardeild Arionbanka.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .