John Williams, yfirmaður San Francisco seðlabankans, segir hagkerfið nú loksins vera komið í jafnvægi.

Samkvæmt CNN Money segir hann allt benda til þess að aðgerðir síðustu ára hafi skilað árangri og því sé nánast allur slaki horfinn úr bandaríska hagkerfinu.

Atvinnuleysi fór upp í 10% eftir fjármálahrunið og stendur nú í 4,7% sem bendir til þess að fullu atvinnustigi sé í raun náð.

Verðbólga hefur þá einnig verið að nálgast markmið bandaríska seðlabankans, sem nemur 2%.

Stýrivextir voru hækkaðir fyrr í þessum mánuði vestanhafs, í þriðja sinn frá hruninu.

Væntingar markaðsaðila benda til þess að stýrivextir verði hækkaðir í tvö til þrjú skipti á þessu ári.

Þar sem aðgerðir bandaríska seðlabankans virðast nokkuð fyrirsjáanlegar í náinni framtíð, velta aðilar á markaði því fyrir sér hvað Trump muni gera, sem geti ýtt undir framleiðsluspennu á næstu árum.