Bandarísk landsframleiðsla óx á ársgrundvelli um 4,6% á öðrum ársfjórðungi 2014. Er þetta nokkur aukning frá eldra mati sem gerði ráð fyrir því að hagvöxtur hefði numið 4,2% á sama tímabili. Tölurnar eru taldar bera vott um aukinn efnahagsbata í Bandaríkjunum þetta árið.

Í frétt Financial Times um málið er haft eftir greiningaraðila sem segir þetta vera einn hraðasta ársfjórðungsvöxt frá árinu 2011. Það staðfestir að hans mati að Bandarískt hagkerfi hafi rétt við sér eftir slakan fyrsta ársfjórðung en það má að miklu leyti rekja til slæms veðurfars.

Helsti drifkraftur vaxtar á öðrum ársfjórðungi er talinn vera aukin fjárfesting sem bætti 0,2 prósentustigi við vöxtinn og aukinn útflutningur sem bætti 0,1 prósentustigi við.