Sænski bílaframleiðandinn Volvo gerir ráð fyrir mikilli eftirspurn eftir bílum sínum á næstu misserum og býst jafnframt við meiri sölu á þessu ári. WSJ greinir frá bjartsýni Volvo þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ekki náð hagnaðarmarkmiðum sínum á síðasta ársfjórðungi.

Sala Volvo jókst þá um 12% á nýliðnum ársfjórðungi þökk sé aukinni sölu í Evrópu og Bandaríkjunum. Sala á rafbílum fyrirtækisins jókst þá um 11% en Volvo setti nýlega rafknúna EX30-jeppann á markað.

„Við munum halda áfram að vinna að því að minnka enn frekar bilið á milli rafknúna og bensínbíla okkar,“ segir Volvo í tilkynningu.

Fyrirtækið bindur þá miklar vonir við EX30-jeppann en Jim Rowan, forstjóri Volvo, segir að bíllinn hafi verið þriðji söluhæsti rafbíll á heimsvísu í lok ársfjórðungsins. Framleiðsla bílsins á sér stað í Kína eins og er en framleiðsla mun bráðum dreifast út og verður bíllinn fáanlegur í 90 löndum í árslok.

Volvo býst við að sala á þessu ári muni aukast um 15% og telur forstjórinn að blandað úrval af rafmagnsbílum og bensínbílum muni hjálpa fyrirtækinu í gegnum allar hraðahindranir á árinu.