Bláa lónið tapaði 720 milljónum króna miðað við 3,2 milljarða tap árið 2020 , að því er fram kemur í tilkynningu frá Bláa lóninu. Bláa lónið var lokað hálft árið bæði árin 2021 og 2020 vegna sóttvarnatakmarkana í tengslum við heimsfaraldurinn, sem hefur haft veruleg áhrif á reksturinn. Fyrsta tapárið í áratug var árið 2020.

Velta ársins nam 48 milljónum evra, um sjö milljarðar króna og jókst um 46% frá fyrra ári en er þó enn mun lægri en árið 2019 þegar veltan nam 125 milljónum evra eða um 17 milljörðum króna.

Rekstarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 2,1 milljón evra, um ríflega 300 milljónum króna árið 2021.

Eignir félagsins námu 147 milljónum evra í árslok 2021 eða 22 milljörðum króna en eiginfjárhlutfall félagsins var 37% og því er eigið fé félagsins um átta milljarðar króna.

Stöðugildi voru að meðaltali 396 á árinu en starfsmenn í árslok voru 569 í 506 stöðugildum. Félagið hyggst ekki greiða út arð vegna starfsemi ársins 2021.

Í tilkynningunni kemur fram að skattspor Bláa Lónsins hafi numið rúmlega 1,8 milljörðum króna á árinu sem sé rúmlega níföld sú fjárhæð sem félagið þáði í gegnum úrræði stjórnvalda. Því má áætla að félagið hafi fengið um 200 milljóna stuðning í gegnum úrræði stjórnvalda á árinu.

Alls fékk Bláa lónið greiddar ríflega 600 milljónir króna úr ríkissjóði vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti vegna 550 starfsmanna, að því er fram kemur á vef Skattsins en upplýsingarnar ná yfir tímabilið maí 2020 til febrúar 2021. Þá fékk 441 starfsmaður Bláa lónsins greiddar alls 186 milljónir króna úr ríkissjóði í tengslum við svokallaðar hlutabætur í mars og apríl 2020.