„Ég hef frá upphafi gagnrýnt það fyrirkomulag sem er á Dróma og að það sé slitastjórn sem er að taka ákvarðanir varðandi einstaklinga. Hlutverk okkar hjá umboðsmanni er að vera málsvarar skuldara og tala máli þeirra á sama tíma og við leitum samninga við kröfuhafa,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, aðspurð um opinberar deilur embættisins við Dróma.

Drómi hyggst taka til baka endurútreikning á 160 lánum sem lækkuð voru eftir lagasetningu árið 2010 en hækkuð aftur í vor í kjölfar dóma Hæstaréttar. Ásta Sigrún hefur sagt réttara að Drómi beini kröfu sinni til ríkisins en lántakenda. „Varðandi málefni Dróma þá held ég því fram að þetta er samfélagslegt mein og það hefur sýnt sig. Það má vera að Drómi fylgi lögum og reglum en er það réttlætanlegt að ákveðinn hluti borgara landsins eigi sitt undir slitastjórn fyrirtækis? Þetta fólk nýtur ekki fjármálaþjónustu eins og aðrir og þarf að fara með sín persónulegu mál til slitastjórnar. Mér finnst þetta óeðlilegt,“ segir Ásta Sigrún. Aðspurð um lausn segir Ásta telja réttast að lánin verði flutt yfir í fjármálafyrirtæki.

Ásta Sigrún Helgadóttir er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.