Í dag undirrituðu forsvarsmenn Akureyrarbæjar og EJS samning um kaup bæjarins á tölvubúnaði og þjónustu sem því tengist til næstu fimm ára. Um er að ræða stærsta samning EJS Akureyri hingað til en Akureyrarbær er með um 1000 tölvur í rekstri. Tölvurnar sjálfar koma frá Dell og áttu forsvarsmenn Dell beina aðkomu að undirbúningi samningsins með verðtilboði sem skilar Akureyrarbæ verulegum ávinningi eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá EJS á Akureyri.

Samningurinn er að undangenginni  verðkönnun Akureyrarbæjar hjá þremur aðilum og reyndist tilboð EJS Akureyri hagstæðast. Óskað var eftir verði í skilgreindar vélar en ekki er kveðið á um í samningnum hversu margar vélar verða keyptar á samningstímanum. EJS  hefur síðustu fimm árin átt samstarf við Akureyrarbæ á hliðstæðum grunni og því verður um beint framhald á þeim samningi að ræða til næstu fimm ára.