Ekki tókst að manna að fullu stjórn N1 fyrir aðalfund sem fram fór í gær. Ástæðan er sú, eins og VB.is greindi frá í gær, að Jón Sigurðsson dró framboð sitt í stjórnina til baka. Hann skýrði ákvörðun sína í bréfi sem birtist á vef Kauphallarinnar örfáum klukkustundum fyrir aðalfund.

Í bréfinu kom fram að Kauphöll Íslands hafði fullyrt að vafi léki á hæfi Jóns til að sitja í stjórninni vegna áminninga sem FL Group fékk fyrir nokkrum árum. Jón er fyrrverandi forstjóri FL Group. Í bréfi Jóns segir að Kauphöllin hafi varað við því að bréf N1 kynnu að verða sett á athugunarlista ef hann tæki sæti í stjórninni.

Vegna stöðu Jóns er stjórn N1 því ekki fullmönnuð. Í tilkynningu N1 um nýja stjórnarmenn segir að stjórnin muni taka ákvörðun um það hvernig brugðist verður við þeirri stöðu. Í stjórnina voru kjörin þau Margrét Guðmundsdóttir, Helgi Magnússon, Guðmundur Arnar Óskarsson og Kristín Guðmundsdóttir.