Við lokun markaða í dag kostaði ein evra 160,6 íslenskar krónur, og hefur ekki verið dýrari síðan í desember 2013.

Bandaríkjadalur var á 136,6 krónur, Sterlingspund á 178,1, og Japanska jenið á 1,29 krónur. Gengisvísitala Seðlabankans stóð í 207,2 og er aðeins rúmum tveimur stigum undir hápunkti sínum í maí á þessu ári, en þá hafði krónan ekki verið veikari síðan í janúar 2014.

Krónan hefur ekki náð lágpunkti sínum gagnvart öðrum af stóru gjaldmiðlunum þegar faraldurinn geisaði sem hæst hér í maímánuði síðastliðnum.

Nokkru styttra er síðan krónan var jafn veik gagnvart pundinu og hún varð nú í maí, eða 2016, en gagnvart Jeninu hafði hún ekki verið jafn veik síðan í febrúar 2013 þegar hún náði lágpunkti sínum.

Bandaríkjadalur sló þó lengsta metið gagnvart krónunni á hápunkti faraldursins, er hann kostaði 147,5 krónur, og hafði þá ekki verið dýrari síðan í desember 2008.