„Mér finnst í framhaldinu eðlilegt að setjast yfir það hversu stór gjaldeyrisvaraforðinn þarf að vera,“ segir Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra í ljósi útboðs ríkissjóðs sem fram fór í síðustu viku. Hún segir að fjármálaráðuneytið muni á allra næstu dögum fara yfir málið með Seðlabankanum og meta hvort ekki sé tímabært að endurskoða stærð forðans.

Ein af forsendum í áætluninni um afnám hafta sem Seðlabanki Íslands hefur kynnt snýr að því að ríkissjóður hafi aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum. Annað skuldabréfaútboðið frá hruni, sem fram fór í síðustu viku á ríkisskuldabréfum til tíu ára, er til marks um það að ríkissjóður sé gjaldgengur á erlendum mörkuðum samkvæmt fjármálaráðherra.

Þetta gefur tilefni til endurskoðunar á stærð forðans og jafnvel minnka hann. „Þá er ég ekki að segja að það verði gert. En það sem mér finnst eðlilegt er að meta það í ljósi þess að við erum með aðgang að mörkuðum,“ segir Oddný um málið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.