ESA, eftirlitsstofnun EFTA, telur að ekki séu forsendur til að aðhafast vegna matshækkana á fasteignum Félagsbústaða, dótturfélags Reykjavíkurborgar. ESA segir í bréfi til innviðaráðuneytisins í sumar að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu reikningsskil Félagsbústaða fari ekki á mis við lög evrópska efnahagssvæðisins. Innherji, sem greinir frá þessu, fékk bréfið afhent frá ráðuneytinu. Bréfið hefur ekki verið birt í gagnagrunni ESA.

„Engin þörf er á eftirfylgni. Í ljósi þeirra upplýsinga sem íslenska ríkið veitti í svörum sínum og á fundinum mun stofnunin leggja til að málinu verði lokað þar sem ekki er hægt að merkja nein brot gegn lögum evrópska efnahagssvæðisins,“ segir í eftirfylgnisbréfi ESA.

ESA óskaði fyrst eftir svörum frá innviðaráðuneytinu um reikningsskil borgarinnar í október 2021. Eftir að ráðuneytið svaraði í desember 2021 óskaði ESA eftir frekari rökstuðningi frá innviðaráðuneytinu.

Sjá einnig: 17,5 milljarða hagnaður vegna matsbreytingar

Félagsbústaðir skilgreina fasteignir sínar sem „fjárfestingareign“ hafa því metið þær á gangvirði fremur en kostnaðarverði. Gangvirðishækkanir á fasteignum félagsins hafa leitt til þess að bókfærður hagnaður Félagsbústaða nam 18,5 milljörðum árið 2021 og 17,5 milljörðum á fyrri helmingi þessa árs, sem er eingöngu tilkominn vegna matshækkunarinnar. Matshækkanir Félagsbústaða knúðu þannig fram jákvæða afkomu A- og B-hluta Reykjavíkurborgar á fyrstu sex mánuðum ársins. Í lok júní höfðu matshækkanir Félagsbústaða í heildina numið 95,6 milljörðum króna samkvæmt.

Eftirlitsstofnunin óskaði sérstaklega eftir skilgreiningu Félagsbústaða á félagslegu húsnæði sem fjárfestingareign og benti á túlkun Alþjóðareikningsskilaráðsins á fjárfestingareign samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila („IPSAS“) þar sem beinlínis sé tekið fram að eignir sem notaðar eru undir félagslegt húsnæði, en sem einnig skapa tekjur, þrátt fyrir að leiga sé undir markaðsvirði, séu talin dæmi um eignir sem falli utan skilgreiningar á „fjárfestingareign“.

Sjá einnig: Borgarlögmaður hjólar í ESA

Ráðuneytið svaraði ESA í lok apríl síðastliðnum og varði reikningsskil borgarinnar. Rökstuðningur ráðuneytisins fólst m.a. í að þar sem Félagsbústaðir hafa gefið út skráð skuldabréf beri félaginu að styðjast við IAS staðalinn fremur en IPSAS. IAS 40 staðallinn heimili fyrirtækjum að velja á milli gangvirðis- eða kostnaðarmats og Félagsbústaðir hafi valið fyrri matsaðferðina.

Málið var tekið fyrir á fundi fulltrúa íslenska ríkisins og ESA í júní og í kjölfarið lagði eftirlitsstofnunin til að málinu yrði lokið.