Í Peningamálum Seðlabankans eru ólíkir mælikvarðar til að mæla húsnæðisverð gerðir að  umtalsefni og þeir sagðir lýsa þróun sem sýni lækkunarferli á markaðsvirði fasteigna. Er þar sérstaklega fjallað um útreikninga Fasteignaskrár Íslands og Hagstofu Íslands. Samkvæmt vísitölu Fasteignaskrár hefur fasteignaverð lækkað um 12 prósent að nafnverði frá því það náði hámarki, árið 2007. Vísitala Hagstofunnar sýnir 13 prósent lækkun nafnverðs á sama tímabili. Að teknu tilliti til verðbólgu þýðir það ríflega 30 prósent lækkun fasteignaverðs.

Helsti munurinn á útreikningum stofnanna tveggja er sá að tímabilin sem horft er til eru mislöng og þá er meðferð þeirra á makaskiptasamningum, sem hafa verið um 30 til 50 prósent allra fasteignaviðskipta á þessu ári, misjöfn.

Við útreikning á vísitölu Fasteignaskrár er ekki litið framhjá makaskiptasamningum. Vísitala Hagstofunnar tekur hins vegar tillit til makaskiptasamninga en lækkar verð fasteignanna um ákveðið hlutfall sem miðast við verðbólgu að  viðbættum vöxtum á viðbótarlánum bankanna, þegar núvirði samningsins er reiknað.

Í Peningamálum kemur fram að erfitt sé að mæla nákvæmlega hvernig þróun fasteignaverðsins er þessa dagana þar sem viðskiptin eru sáralítil. Þess vegna geta niðurstöður fyrir einstaka mánuði verið ónákvæmar og sveiflukenndar. Til lengri tíma sýna báðar vísitölurnar hins vegar sömu þroun, það er skarpa verðlækkun.