Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar sem sinnir útleigu á félagslegu íbúðarhúsnæði, hagnaðist um 18,5 milljarða króna árið 2021, samanborið við 1,4 milljarða hagnað árið áður. Hagnaðurinn er allur tilkominn vegna 19,6 milljarða króna hækkunar á virði fasteignamats eigna félagsins á síðasta ári en afkoman var neikvæð um 1,1 milljarð fyrir matsbreytingar. Rekstrartekjur félagsins námu 5,1 milljörðum.

Bókfært virði fjárfestingareigna Félagsbústaða, þ.e. félagslegu íbúðarhúsæði, nam 123,8 milljörðum króna í árslok 2021. Þar af nam kostnaðarverð fyrir matshækkun tæplega 49 milljörðum en matshækkun 74,8 milljörðum króna.

Sjá einnig: 70 milljarða bókhaldsvilla?

Í október síðastliðnum óskaði ESA, eftirlitsstofnun EFTA, eftir rökstuðningi innviðaráðuneytisins, sem hét þá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, á reikningsskilum Reykjavíkurborgar og þá sérstaklega varðandi matsaðferð á fasteignum Félagsbústaða.

Í seinna bréfinu sem ESA sendi til ráðuneytisins í byrjun febrúar benti eftirlitsstofnunin á túlkun Alþjóðareikningsskilaráðsin á fjárfestingareign samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila  („IPSAS“) þar sem beinlínis sé tekið fram að eignir sem notaðar eru undir félagslegt húsnæði, en sem einnig skapa tekjur, þrátt fyrir að leiga sé undir markaðsvirði, séu talin dæmi um eignir sem falli utan skilgreiningar á „fjárfestingareign“.

Félagsbústaðir leigja  út um 3.000 leigueiningar, sem eru að langstærstum hluta í eigu félagsins. Félagsbústaðir keyptu 117 fasteignir og seldu 9 fasteignir á árinu 2021. Heildarfjárfesting í fjárfestingareignum nam 4 milljörðum króna á síðasta ári sem er um 20% minna en árið áður.