Pólska símafyrirtækið Netia, sem er að hluta til í eigu Novators, hefur ráðið Miroslaw Godlewski sem nýjan forstjóra félagsins, segir í tilkynningu frá Netia.

Godlewski mun taka við starfinu af Pawel Karlowski, sem tók við af Wojciech Madalski fyrr á þessu ári. Godlewski er því þriðji forstjóri félagsins á skömmum tíma.

Greiningaraðilar telja ráðninguna neikvæða fyrir þróun á gengi hlutabréfa félagsins. "Ráðningin er neikvæð fyrir hlutbréfaverð félagsins þar sem hann (Godlewski) hefur enga reynslu af rekstri símafyrirtækja," segir Dorota Puchlew, sérfræðingur hjá PKO BP í Varsjá.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á í kringum 30% hlut í Netia og 70% hlut í farsímarmi félagsins P4.