Stjórn Landsvirkjunar hefur tekið ákvörðun um að hefja framkvæmdir við Sauðárveitu, og hefst vinna í sumar við vegagerð og aðstöðusköpun. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki haustið 2012, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Kort Kárahnjúkar
Kort Kárahnjúkar
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Um er að ræða veitingu Innri-Sauðár og Ytri-Sauðár í Grjótárlón, en þær eru tvær austustu árnar á virkjunarsvæði Hraunaveitu. Samkvæmt upphaflegum framkvæmda­áformum átti að gera þessar veitur á árunum 2008 og 2009 en framkvæmdum var frestað vegna óviss efnahagsástands og að ekki var talin bráð þörf fyrir vatnið frá þessum ám vegna orkuframleiðslu í Fljótsdalsstöð.

Eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd felast framkvæmdirnar í því að stífla núverandi útfall Ytri-Sauðár úr Sauðárvatni sem er í 790 m hæð og grafa skurð sem veitir vatni úr Sauðárvatni í Innri-Sauðá. Um 5 km norðar er Innri-Sauðá stífluð og henni veitt í Grjótá. Frá Grjótá hafa verið gerð jarðgöng yfir í Kelduárlón, vestasta hluta Hraunaveitu, sem ásamt Hálslóni miðlar vatni til Fljótsdalsstöðvar.

Aukning orkugetu vegna þessara framkvæmda er áætluð um 40 GWst á ári, en til samanburðar má geta að á síðasta ári framleiddi Fljótsdalsstöð um 5000 GWst . Þó svo að aukningin sé lítil þá er um að ræða dýrmætt vatn sem eykur nýtingu miðlunar í Hraunaveitu og minnkar töp í vatnsvegum Kárahnjúkavirkjunar. Auk þess kemur rennslið aðallega fram á öðrum árstímum en þegar jökulbráðnun er í hámarki.

Af öðrum framkvæmdum sem unnið verður við vegna Kárahnjúkavirkjunar í ár má nefna að við Hálslón verður unnið að rofvörnum á austurströnd lónsins. Tvö minni háttar verk verða unnin vegna Kárahnjúkastíflu. Þá verða Jökulsárgöng hreinsuð og lagfærð og lokið við sáningu í röskuð svæði.“