*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 24. janúar 2018 09:44

Gætu orðið stærsta fjárfestingafélagið

Stoðir gætu orðið eitt stærsta fjárfestingafélag landsins eftir að sala á hlut þeirra í Refresco gengur í gegn.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Eignarhaldsfélagið Stoðir sem áður gekk undir nafninu FL Group, gæti orðið eitt stærsta fjárfestingafélag landsins eftir að félagið selur megineign sína, 8,87% hlut í drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Frá þessu er greint á Vísi.is en þar kemur fram að vilji sé til þess hjá stærstu hluthöfum Stoða að halda starfsemi félagsins áfram eftir söluna.

Stjórn Stoða hyggst kynna nýjar áherslur í starfsemi félagsins á hluthafafundi á árinu en búist er við að salan á eignarhlutinum í Refresco ljúki á öðrum ársfjórðungi en heildarverðmæti Refresco er um 200 milljarðar króna en þar af er hlutur Stoða um 18 milljarða.

Sá hópur fjárfesta sem fer með tögl og haldir í Stoðum samanstendur af félögum tengdum Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra FL Group, Einari Erni Ólafssyni fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Magnúsi Ármann fjárfesti og Örvari Kjærnested, fjárfesti.