Hlutabréfaverð Marels féll um 4,7% í ríflega 700 milljóna króna viðskiptum í dag og stendur nú í 564 krónum á hlut. Gengi félagsins hefur ekki verið lægra síðan í byrjun apríl 2020.

Gengi Marels stóð í 874 krónum á hlut í byrjun árs en hefur síðan lækkað um tæplega 40%. Gengið tók að hækka í byrjun síðasta mánaðar en féll aftur eftir að félagið tilkynnti að framlegð EBIT-framlegð á öðrum ársfjórðungi var nokkuð undir væntingum félagsins. Marel tilkynnti samtímis um aðgerðir til að bæta rekstrarafkomu, m.a. að fækka starfsfólki um 5%.

Alls var 3,2 milljarða króna velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan eða um 713 milljónir króna var með hlutabréf Festi sem hækkuðu um 1,8% í dag. Gengi Festi stendur nú í 226 krónum. Hlutabréfaverð Haga hækkaði einnig um 1,4% og er nú í 73,5 krónum.

Sjá einnig: Gengi Nova ekki hærra frá skráningu

Hlutabréf Síldarvinnslunnar hækkuðu um 0,9% í 134 milljóna viðskiptum. Gengi útgerðarfélagsins stendur nú í 111 krónum og hefur ekki verið hærra frá skráningu í Kauphöllina í maí 2021.