Georg Haraldsson hefur verið ráðinn til Íslandspósts sem forstöðumaður Stafrænnar þjónustu, en hann mun stýra þróun og stefnumörkun á stafrænum þjónustuleiðum fyrirtækisins. Georg tekur til starfa í lok sumars.

Georg hefur viðamikla reynslu af alþjóðlegri sölustýringu og þróun rafrænna sölu- og markaðsdreifikerfa, en hann kemur til Póstsins frá Iceland Travel þar sem hann gegndi hlutverki forstöðumanns viðskiptastýringar.

Á árunum 2014 til 2017 var Georg búsettur í Dubai, þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri Marorku í Miðausturlöndum og leiddi þar uppbyggingu félagsins á fjarmörkuðum. Áður hefur Georg starfað við stafræna þróun hjá Völku, Iceland Express og Dohop.

Georg er tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er einnig með meistaragráðu í alþjóða-viðskiptum frá HR og IE Business School, einum virtasta viðskiptaháskóla Evrópu. Georg er kvæntur Hjördísi Jónsdóttir verkefnastjóra hjá Tulipop og eiga þau fjögur börn. Georg er jafnframt sagður ástríðukokkur, golfari, söngvari og grjótharður KR-ingur.

Mikil tækifæri til hagræðis með stafrænum lausnum

„Pósturinn á mikið inni þegar kemur að stafrænum lausnum og nýir stjórnendur fyrirtækisins eru meðvitaðir um að þær eru mikilvægasta breytan í að bæta þjónustu við viðskiptavini og til þess að finna nýjar virðisaukandi þjónustuleiðir. Ég er þess fullviss að þetta verður krefjandi og jafnframt skemmtilegt verkefni og hlakka ég til að mæta til starfa og takast á við áskorunina að gera Póstinn að framúrskarandi þjónustufyrirtæki!,“ segir Georg Haraldsson.

Birgir Jónsson , forstjóri Íslandspósts segir félagið gríðarlega ánægt með að fá Georg. „[H]ann er reynslubolti sem mun reynast okkur mjög vel í þeirri vegferð sem framundan er. Við erum að stórauka áherslu á stafrænar lausnir í allri okkar starfsemi og því má búist við flottum tæknilausnum í náinni framtíð sem stórbæta þjónustu okkar og upplifun viðskiptavina,“ segir Birgir.

„Pósturinn hefur vissulega verið að þróa ýmsar lausnir á stafræna sviðinu undanfarin misseri en með þessum skipulagsbreytingum leggjum við ríkari áherslu á þennan málaflokk þar sem við erum að skapa nýja deild sem vinnur þvert á skipuritið, en hún á að samræma og innleiða allar stafrænar lausnir á mun markvissari hátt en verið hefur.“

Birgir segir markmið félagsins fyrst um sinn vera að minnka kostnað í yfirbyggingu félagsins og ná betri arðsemi í rekstri, en ekki megi missa sjónar af því að við verðum að bæta þjónustu til viðskiptavina og marka skýra sýn fyrir framtíð fyrirtækisins.

„Lykillinn að framúrskarandi þjónustu sem og aukinni hagræðingu er betri nýting á upplýsingatækni og því er ráðning Georgs og aukin áhersla á stafrænar lausnir gríðarlega mikilvægur hluti af umbreytingu fyrirtækisins,“ segir Birgir.

„Með ráðningum eins og þessari erum við að tryggja það að hópurinn sem fær það verkefni að umbylta Póstinum, sé vel samsettur af öflugu og kröftugu fólki sem vinnur saman að sameiginlegum markmiðum. Georg er mjög drífandi og reyndur stjórnandi úr alþjóðlegu umhverfi og það mun hjálpa okkur mikið í því stóra verkefni sem liggur fyrir.“