Samkeppniseftirlitið ákvað í dag að sekta Geysir Green Energy (GGE) vegna skorts á upplýsingum þegar til stóð að kaupa allt hlutafé Jarðborana.

Í ágúst 2007 var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um kaup GGE á öllu hlutafé Jarðborana. Á vef Samkeppniseftirlitsins kemur fram að við meðferð samrunamálsins hafi orðið verulegar breytingar á forsendum samrunans vegna samruna GGE við Reykjavík Energy Invest (REI).   „Var Samkeppniseftirlitinu ekki tilkynnt þar um og því síður var stofnuninni gerð fullnægjandi grein fyrir því þegar í stað er fallið var frá samruna GGE og REI. Í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitinu hafði verið gerð grein fyrir breytingunum svaraði GGE ekki gagnaósk Samkeppniseftirlitsins innan tilskilins frests,“ segir á vef Samkeppniseftirlitsins.

„Verður það að teljast sérlega ámælisvert þegar um samrunamál er að ræða,“ segir jafnframt.