Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ætla að hætta í stjórnmálum ef hann tapar formannskjöri á landsfundi flokksins um næstu helgi. Bjarni greindi frá þessu í útvarpsþættinum Sprengisandi í hádeginu.

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi spurði hvort Bjarni gæti setið áfram sem fjármálaráðherra ef hann tapar formannskjörinu.

„Ég ætla ekkert að vera að draga fjöður yfir það. Ef að mínum tíma sem formanni lýkur í þessu kjöri þá er mínum tíma í stjórnmálum bara lokið. Það er ekkert flóknara en það. Mér finnst það líka bara eðlilegt, ég myndi alveg geta sætt mig við það.“

Bjarni segir að fari svo að hann tapi formannsslagnum þá muni hann einfaldlega flytja sig yfir á nýjan vettvang.

„Ég held ég vinni þessa kosningu. Það er mín tilfinning,“ bætti hann þó við.

„Í ljósi þess hversu lengi ég hef verið að – ég er samt sem áður ungur maður, meira að segja yngri maður heldur en Guðlaugur Þór – þá er ég með fulla starfsorku. Ég hef líklega aldrei á minni starfsævi haft meiri reynslu, meiri þekkingu á því sem ég er að gera eins og einmitt í dag. Ég mæti glaður í vinnuna á hverjum einasta degi.“

Leyfir Guðlaugi að eiga sitt „móment“

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur boðað til opins fundar í dag kl 12:30 í Valhöll þar sem hann mun gera grein fyrir ákvörðun sinni um framboð til formannskjörs.

Bjarni segist hafa heyrt í Guðlaugi Þór í morgun en gaf ekki upp nákvæmlega hvað kom fram í þeirra samskiptum. „Verður Guðlaugur Þór ekki bara að fá að eiga sitt móment.“

„Nú er staðan þessi að við fórum í kosningar í fyrra og ég kom að því að tryggja Sjálfstæðisflokknum sæti í ríkisstjórn með nýjum stjórnarsáttmála. Það var heilmikil vinna á bak við það. Eitt ár er liðið síðan, mikið eftir af kjörtímabilinu. Ég er enn af fullum krafti að vinna að framgangi okkar stefnu og stefnumála. Mér finnst það hafa gengið vel og skilað frábærum árangri.“