Íslandsbanki hagnaðist um 2,1 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs og dróst hagnaður bankans saman um 58% frá sama tímabili í fyrra en bankinn birti uppgjör fyrir tímabilið fyrir skömmu. Hagnaður bankans á fyrri helmingi ársins nam 4,7 milljörðum króna og dróst saman um 33% milli ára. Arðsemi eiginfjár á ársgrundvelli nam 4,9% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 11,6% á sama tíma í fyrra. Arðsemin á fyrrihelmingi ársins nam 5,4% og dróst saman um 3,8 prósentusig frá sama tíma í fyrra.

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 3 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og dróst saman um 900 milljónir milli ára. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 5,7 milljörðum á fyrri hluta ársins og lækkaði um 1,1 milljarð milli ára. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 7,8% á ársgrundvelli á öðrum ársfjórðungi en 7,2% á fyrri helmingi ársins.

Hreinar vaxtatekjur námu 8,6 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og jukust um milljarð milli ára. Hreinar vaxtatekjur á fyrri helmingi ársins námu 16,8 milljörðum og jukust um 1,5 milljarða milli ára. Vaxtamunur bankans nam 2,8% á bæði öðrum ársfjórðungi og fyrri helmingi ársins og stóð í stað milli ára.

Hreinar þóknanatekjur voru 3,4 milljarðar á öðrum ársfjórðungi og jukust um 13% milli ára. Á fyrri helmingi ársins námu hreinar þóknanatekjur 6,6 milljörðum og jukust um 14% milli ára.

Virðisbreyting útlána var neikvæð um 1,85 milljarða á fyrri helmingi ársins en var jákvæð um 1,93 milljarða á sama tíma í fyrra. Stjórnunarkostnaður á fyrri helmingi ársins jókst um 4,7% milli ára og nam 14,4 milljörðum króna.

Kostnaðarhlutfall samstæðunnar á fyrri helmingi ársins var 62,0% samanborið við 67,3% á sama tímabili í fyrra, á meðan kostnaðarhlutfall móðurfélags var 55,4% sem er við 55% langtímamarkmið bankans.

Útlán til viðskiptavina jukust um 5,7%  og námu 47,8 milljörðum frá lokum árs 2018 og námu 894 milljörðum króna í lok júní. Ný útlán á fyrri árshelmingi voru 107,4 milljarða króna. Innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 36,9 milljarða á fyrri helmingi ársins og námu 616 milljörðum í lok júní.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka:

„Ágætur gangur var í rekstri Íslandsbanka á fyrri helmingi ársins 2019 og það var ánægjulegt að sjá bankann með yfir 40% markaðshlutdeild á nýjum útlánum til einstaklinga á tímabilinu. Viðskiptavinir hafa tekið stafrænum lausnum vel en bankinn kynnti fyrir skömmu nýja húsnæðislánaþjónustu og sjálfvirkt greiðslumat á vefnum auk þess að bjóða nú upp á Apple Pay þjónustu.

Hlutdeild Íslandsbanka sem aðalviðskiptabanki fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er sú hæsta á markaðnum eða 37% samkvæmt Gallup auk þess sem þjónustukannanir sýna fram á hæsta NPS skor frá upphafi mælinga. Bankinn hefur verið í sókn á verðbréfamarkaði frá áramótum og var Íslandsbanki með mestu hlutdeild allra á skuldabréfamarkaði og næst mestu á hlutabréfamarkaði. Þóknanatekjur jukust á tímabilinu um 14% og vaxtatekjur um 9,4%.

Kostnaðarhlutfall móðurfélags er nú 55% sem er í takt við markmið bankans. Þetta er jákvætt og endurspeglar vinnu undanfarinna mánaða við að auka tekjur og draga úr kostnaði en samsvarandi hlutfall fyrir samstæðu er 62%. Útlánavöxtur hefur haldist stöðugur og mælist eignasafn bankans sterkt í alþjóðlegum samanburði.

Neikvæðar virðisbreytingar á útlánum í kjölfar versnandi efnahagsástands og áframhaldandi taprekstur hjá einu af dótturfélögum bankans draga hinsvegar niður afkomu samstæðu sem skilaði 4,7 milljarða króna hagnaði á fyrri árshelmingi 2019 en það er lækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Lausafjárhlutföll bankans hafa hækkað frá áramótum og eru vel yfir innri mörkum og kröfum eftirlitsaðila auk þess sem eiginfjárhlutföll eru við langtímamarkmið bankans. Fjármögnun bankans hefur gengið vel og höfum við haldið áfram að gefa út víkjandi skuldabréf í sænskum krónum auk þess sem innlán hafa aukist frá áramótum.

Það styttist í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem er stærsti fjáröflunarviðburður ársins en það verður haldið þann 24. ágúst. Við erum stolt af því að vera aðalstyrktaraðili hlaupsins og hvetjum við landsmenn til að hlaupa og styðja við góðan málstað.“