Kvika eignastýring hf., hagnaðist um 648 milljónir króna fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er svipaður hagnaður og á sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam 660 milljónum króna.

Í árshlutareikningi félagsins kemur fram að eignir í stýringu hafi aukist um 16 milljarða króna á milli ára og stóðu í 448 milljörðum króna í lok tímabilsins. Þannig er Kvika eignastýring næststærsta eignastýringarfélag landsins þegar horft er til eigna í stýringu, að því er kemur fram í tilkynningu.

Hreinar rekstrartekjur námu rúmlega 1.600 milljónum króna og breyttust þær lítið á milli ára. Rekstrargjöldin jukust á sama tíma um tæp þrjú prósent, úr rúmlega 932 milljónum króna, í 959 milljónir króna. Þar af jukust laun og launatengd gjöld um 25 milljónir á milli ára og fóru þannig úr 477 milljónum í 502 milljónir.

Eigið fé félagsins dróst saman um 480 milljónir króna á tímabilinu og stóð í 3.190 milljónum króna í lok júní, en það var 3.679 milljónir í ársbyrjun. Skuldirnar minnkuðu á sama tíma um tæpar 150 milljónir króna. Þar með lækkaði eiginfjárhlutfallið úr 83,7% í 78,8%.

Í lok júní voru samtals 47 sjóðir í rekstri hjá félaginu, átta samlagshlutafélög og eitt samlagsfélag.

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, segir félagið hafa staðið sig vel á krefjandi mánuðum.

„Fjölmargar áskoranir hafa komið upp á fyrri hluta þessa árs sem hefur helst einkennst af stríði í Úkraínu og stóraukinni verðbólgu um allan heim. Kvika eignastýring hefur þrátt fyrir það staðið sig vel á krefjandi mánuðum. Hagnaður félagsins nam 648 m.kr. á fyrri helmingi þessa árs. Eignir í stýringu jukust um 16 milljarða króna miðað við sama tíma á síðasta ári. Á þessu ári hafa eignir í stýringu lækkað um rúm 4%. Fyrst og fremst skýrist þetta af neikvæðri ávöxtun á mörkuðum þar sem nettó innflæði hjá Kviku eignastýringu á þessu tímabili voru rúmir 19 milljarðar króna. Ég er virkilega ánægður með starfsfólk Kviku eignastýringar í þeim krefjandi ytri aðstæðum sem hafa verið uppi. Þetta styrkir trú mína á þeirri góðu þjónustu og vöruframboði sem við veitum viðskiptavinum okkar.“