*

föstudagur, 18. september 2020
Innlent 9. ágúst 2020 18:01

Hard Rock tapað 937 milljónum frá opnun

Eigið fé Hard Rock á Íslandi var neikvætt um 738 milljónir og skuldir námu 1,3 milljörðum í árslok 2019.

Sigurður Gunnarsson
Rekstur Hard Rock gekk vel í upphafi árs áður en samkomutakmarkanir settu strik í reikninginn, segir Stefán Magnússon framkvæmdastjóri félagsins.
Haraldur Guðjónsson

Hard Rock opnaði aftur á Íslandi eftir 11 ára hlé á Lækjargötu 2 í október 2016. HRC Ísland, rekstraraðili staðarins, tapaði 101,6 milljónum króna á síðasta ári og hefur tapað rúmum 937 milljónum á síðustu fjórum árum, samkvæmt ársreikningum.

Tekjur félagsins á síðasta ári námu 718 milljónum samanborið við 780 milljónir árið áður. Rekstrargjöld námu 808 milljónum samanborið við 1.020 milljónir árið 2018. Þar munaði mest um að laun og launatengd gjöld drógust saman um 140 milljónir milli ára og námu 304,6 milljónum á síðasta ári en fjöldi ársverka fækkaði úr 46 í 39. Fjöldi starfsmanna miðað við heilsársstörf var 85 árið 2017 en laun og launatengd gjöld námu 505 milljónum það árið.

Eignir félagsins námu 566 milljónum í árslok 2019, þar af voru fastafjármunir 427 milljónir og veltufjármunir 139 milljónir. Eigið fé var neikvætt um 738 milljónir og skuldir námu 1,3 milljörðum. Skuldir við tengda aðila námu 1,1 milljarði. Handbært fé var um 12,4 milljónir í lok árs.

Stefna á áframhaldandi rekstur

Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Hard Rock á Íslandi, segir að mikil aðsókn hafi verið í upphafi árs en Covid-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif, sérstaklega fyrir stað að þessari stærð. Staðnum var lokað í nokkra daga en opnaði aftur þrátt fyrir 20 manna samkomubann. Reksturinn þróaðist síðan með samkomutakmörkunum og byrjað var að bjóða upp á heimsendingar. Um 30 manns starfa á Hard Rock í dag og fóru allir starfsmenn á hlutabætur. Stefán segir að félagið stefni þó á áframhaldandi rekstur.

Staðurinn er á fjórum hæðum auk kjallara. Á fyrstu hæð er Hard Rock búðin og veitingastaðurinn, sem tekur tæplega 200 gesti, er á annarri hæð. Í kjallaranum eru viðburðir í flestum vikum, líkt og tónleikar eða uppistand, en þar er leyfi fyrir 300 manns. Einnig er leigt út sali fyrir einkasamkvæmi í kjallaranum, á fjórðu hæðinni og stefnt er að bæta við öðrum sal á þriðju hæðinni.

Á fyrstu mánuðum eftir opnun staðarins árið 2016 kom ýmislegt upp á líkt og bilanir á tölvukerfi og loftræstingunni, sem vó á reksturinn. Hins vegar var lagt mikið í hönnun staðarins og meira en 100 manns komu að framkvæmdunum á sínum tíma. „Við vorum ekkert að tjalda til einnar nætur. Það var ákveðið að gera þetta almennilega,“ segir Stefán.

Í eigu eins stærsta hluthafa Icelandair

Hard Rock á Íslandi er að mestu í eigu Högna Péturs Sigurðssonar í gegnum HRC eignarhaldsfélag og félögin Nautica ehf. og Zukunft ehf. Högni er jafnframt meðal stærstu hluthafa Icelandair með um 3,6% hlut en hann hefur bætt verulega við hlut sinn í flugfélaginu á síðustu vikum.

Eyja fjárfestingarfélag, í eigu hjónanna Birgis Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, stóð fyrir opnun Hard Rock á Lækjavegi árið 2016. Eyja, sem er hluthafi í Joe & the Juice, Snaps og Gló og átti áður Domino‘s á Íslandi, seldi Högna sinn hlut í HRC Íslandi einungis tveimur mánuðum eftir að opnun veitingastaðarins. Birgir tjáði Morgunblaðinu á sínum tíma að ákvörðunin um að selja tengdist uppbyggingu Domino‘s Pizza á Norðurlöndunum.

Hard Rock Café var rekið í Kringlunni í átján ár frá 1987 til 2005. Tómas Tómasson opnaði veitingastaðinn og rak hann í tólf ár. Félagið Gaumur keypti Hard Rock af honum árið 1999 og rak staðinn til ársins 2005.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.