Hlutafjáreign almennings á Íslandi hefur tekið að aukast á ný eftir mikla lægð í kjölfarið á bankahruninu 2008. Í lok árs 2012 áttu einstaklingar hér á landi um 5,4% af öllu skráðu hlutafé hér á landi en hlutfallið var komið í 4,5% lok árs 2009.

Það er þó langt frá því sem var á árunum fyrir hrun. Árið 2002 áttu einstaklingar um 17,2% af öllu skráðu hlutafé, 15% árið 2003, 12,9% árið 2004 og 12,3% árið 2005. Árin 2006 og 2007 var hlutafjáreign einstaklinga í kringum 11% áður en hlutfallið hrundi niður í 6,5% í lok árs 2008.

Þetta kemur fram í gögnum frá Kauphöllinni sem ásamt Háskólanum í Reykjavík heldur svokallaðan Kauphallardag sem hófst nú klukkan 13 þar sem meðal annars er fjallað um þátttöku almennings og hvað beri að varast við fjárfestingar á markaði.