Netverslunin Boozt hefur vaxið á ógnarhraða frá því að heimsfaraldurinn skall á fyrir um tveimur árum síðan. Að sögn Hermanns Haraldssonar, forstjóra Boozt, velti netverslunin 5,8 milljörðum sænskra króna á síðasta ári, eða sem nemur um 80 milljörðum íslenskra króna, en árið áður velti félagið 4,4 milljörðum sænskra króna. Jókst veltan því um 32% milli ára, en milli 2019 og 2020 jókst velta félagsins um 27%. Þá hefur félagið skilað hagnaði frá árinu 2016 en hagnaður ársins 2020 nam tæplega 133 milljónum sænskra króna, eða sem nemur um 1,8 milljörðum íslenskra króna, og jókst um 78 milljónir sænskra króna frá fyrra ári. Auk þess hefur gengi hlutabréfa Boozt þrefaldast frá því að Covid skall á.

„Sala félagsins jókst verulega eftir að faraldurinn braust út, þar sem ýmsar samkomutakmarkanir gerðu það að verkum að verslun færðist í stórauknum mæli á netið," segir Hermann. Faraldurinn hafi orðið þess valdandi að netverslun sótti mun hraðar í sig veðrið en spár höfðu gert ráð fyrir. „Í uppgjöri fjórða ársfjórðungs ársins 2019 lögðum við fram spá um vöxt félagsins næstu árin. Þar gerðum við ráð fyrir 15-20% árlegum tekjuvexti næstu 3-5 árin. Vöxturinn varð hins vegar mun meiri. Það má því segja að við höfum gengið í gegnum fimm ára vöxt á tveimur árum." Að sama skapi hefur starfsmönnum Boozt fjölgað verulega. Í lok árs 2020 voru þeir um 450 en ári síðar voru þeir orðnir 1.300.

Vegferðin þyrnum stráð

Þó er óhætt að segja að vegferð Boozt, sem stofnað var árið 2007, hafi verið þyrnum stráð.  „Upphaflega hugmyndin á bak við Boozt var að þjónusta fatavörumerki með því að byggja upp og halda utan um netverslanir þeirra. Áhuginn á þessari þjónustu var hins vegar lítill," segir Hermann en leiðir hans og Boozt lágu saman árið 2010. „Þarna var nýbúið að segja mér upp sem forstjóra danska knattspyrnuliðsins Bröndby og ég var þ.a.l. í leit að nýjum verkefnum. Þá hafði áhættusjóður, sem var stærsti fjárfestirinn í Boozt, samband við mig og bauð mér að koma inn til að stýra fyrirtækinu. Áhættusjóðurinn hafði fjárfest í Boozt árið áður."

Eins og fyrr segir hafði rekstur Boozt fram að þessu gengið brösuglega. „Á þessum tíma störfuðu aðeins fimm starfsmenn hjá fyrirtækinu og viðskiptamódel þess var engan veginn að virka. Þegar ég tók við sannfærði ég sjóðinn um að byrja alveg upp á nýtt. Þeir fáu starfsmenn sem störfuðu hjá félaginu voru látnir fara. Í kjölfarið hafði ég samband við nokkra gamla félaga til að kanna hvort þeir hefðu áhuga á að aðstoða mig við að byggja upp nokkurs konar netverslunarmiðstöð," segir Hermann. Einn þessara var gamall skólafélagi hans og hinum hafði hann starfað með í fyrri störfum. „Ég sagði hreint út við þá að þetta væri áhættusamt verkefni og það gæti vel endað með gjaldþroti félagsins. Aftur á móti sagðist ég hafa fulla trú á verkefninu og að ef vel gengi myndum við allir efnast nokkuð vel," segir Hermann glettinn.

Félagar Hermanns sjá varla eftir því að hafa tekið boði hans, því í dag nemur markaðsvirði Boozt um 10,6 milljörðum sænskra króna, eða sem nemur um 145 milljörðum íslenskra króna.

Nánar er rætt við Hermann í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .