Húsasmiðjan mun í haust opna nýja og rúmgóða verslun á Hvolsvelli, samtals 1200 fm. Nýja verslunin leysir gömlu verslunina af hólmi sem verið hefur á Hvolsvelli frá 1998 en hún er í gömlu og ófullnægjandi húsnæði.

Í tilkynningu vegna fyrirhugaðrar byggingar nýrrar verslunar hefur Húsasmiðjan gengið til samstarfs við björgunarsveitina Dagrenningu á Hvolsvelli um að kaupa hluta af lóðinni að Dufþaksbraut 10. Hefur verið samið við byggingaverktakafyrirtækið JÁVERK um að reisa nýju verslun Húsasmiðjunnar sem verður á rúmgóðri lóð með stóru athafnasvæði. Nýja verslunarhúsið er teiknað af Nýju teiknistofunni. Stefnt er að opnun verslunarinnar í september næstkomandi.

„Þetta verður alger bylting í rekstri Húsasmiðjunnar á Hvolsvelli en starfsemin hefur verið í ófullnægjandi húsnæði sem er löngu sprungið,“ segir Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar. „Með því að reisa nýja verslun verður hægt að halda úti mun betri þjónustu við viðskiptavini á svæðinu og hafa mun fjölbreyttara vöruframboð. Húsasmiðjan hefur trú á að sveitarfélagið muni stækka og eflast á komandi árum, meðal annars með aukningu byggðar og fleiri frístundahúsum. Við viljum taka þátt í þeirri þróun.“