*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 30. maí 2020 12:01

Íhaldssamur og varfærinn með peninga

Finnur Árnason hefur flýtt sér hægt með breytingar og staðreynt ágæti nýrra hugmynda áður en lengra er haldið.

Júlíus Þór Halldórsson
Finnur Árnason segir ekkert eitt hafa ráðið úrslitum um ákvörðun hans um að láta af störfum sem forstjóri Haga, en hann hefur gegnt stöðunni í hálfan annan áratug.
Gígja Einarsdóttir

Finnur Árnason, fráfarandi forstjóri Haga, er ekki mikið fyrir að stökkva í djúpu laugina, ef svo má að orði komast. Hann hefur í gegnum tíðina lagt áherslu á varfærnisleg skref og gagnaöflun áður en gerðar eru miklar breytingar á rekstrinum.

„Ég er íhaldssamur, ég bara viðurkenni það, og varfærinn í meðferð peninga. Það eru fjölmörg verkefni sem koma til skoðunar, og oft auðvelt að segja já, en um leið og þú gerir það þá ertu búinn að skuldbinda þig til fjárútláta og kostnaðar. Mér hefur fundist betra að vita hvort sá peningur kemur til baka eða ekki,“ segir hann, og viðurkennir að jafnvel sé oft betra að leyfa keppinautum að prufa hlutina og sjá hvernig það gengur áður en lengra er haldið.

„Sumir segja stöðugleika kost, aðrir ókost. Ég held að hann hafi verið kostur fyrir þetta félag,“ segir Finnur og vísar til sterkrar stöðu þess á markaði máli sínu til stuðnings. „Við höfum lagt áherslu á að gera tilraunirnar á þeim skala að það skaði okkur ekki. Þegar við viljum prófa tiltekin verkefni þá gerum við það og fáum einhverja niðurstöðu. Ef það er að ganga vel þá höldum við áfram og gerum breytinguna á stærri skala. Ef breytingin gefst hins vegar ekki vel, þá erum við ekki komin það langt að vera búin að fjárfesta of mikið.“

Aðspurður vill Finnur lítið segja um hvort hann telji arftaka sinn og nafna deila þessum áherslum hans, en hefur gott eitt að segja um hann og framtíð Haga, og telur ljóst að hann muni setja mark sitt á reksturinn. „Við erum með mjög traustan rekstur, flottan efnahag, og það er fullt af verkefnum framundan, bæði að viðhalda því sem við erum að gera vel og bæta það sem bæta má. Ég treysti honum fullkomlega til að taka næstu skref.“

Nánar er rætt við Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Hagar Finnur Árnason