Ingibjörg Ólafsdóttir sem gengt hefur stöðu hótelstjóra Park Inn Íslands hefur verið ráðin sem hótelstjóri Radisson SAS hótelsins í Leeds í Bretlandi frá og með 15.október. Þetta kemur fram í frétt frá hótelinu.

Ingibjörg er vel kunn innan íslensku ferðaþjónustunnar en hún hefur margra ára reynslu af hótelstjórnun. Hún hóf feril sinn á Hótel Sögu sem vaktstjóri í gestamóttöku og var gerð að hótelstjóra Hótel Íslands þegar Saga tók yfir reksturinn og opnaði hótelið árið 1991. Ingibjörg hefur stýrt hótelinu síðan þá og var lykilmanneskja þegar hótelið gekk til liðs við Radisson SAS árið 1999 og síðar Park Inn árið 2005.

Sigríður Ingvarsdóttir tekur við starfi Ingibjargar á Park Inn. Sigríður hefur starfað á Hótel Sögu í fjölda ára og gegnt þar hinum ýmsu störfum innan hótelsins s.s. í gestamóttöku, í bókunardeild sem forstöðumaður gistideildar og nú síðast sem innkaupa og gæðastjóri.

Park Inn Ísland og Radisson SAS Hótel Saga eru bæði í eigu Bændasamtaka Íslands og rekin saman. Framkvæmdarstjóri hótelanna er Hrönn Greipsdóttir en allar lykilstöður eru sameiginlegar s.s. fjármálastjórn, innkaup og sölu og markaðssetning.