Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi ISAL, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið hafi nú fallið frá því tilboði sem lagt var fram á fundi hjá ríkissáttasemjara 14. desember. Í tilboðinu var boðið upp á samtals um 24% launahækkun til ársins 2019 og allt að 8% til viðbótar í bónusum. Spurður um hvað ISAL muni bjóða í staðinn segir Ólafur að næstu daga muni fyrirtækið fara yfir stöðuna.

Í tilkynningu sem ISAL sendi frá sér fyrr í dag sagði að nýtt tilboð myndi endurspegla betur þann fjárhagslega veruleika sem ISAL stendur frammi fyrir. Viðskiptablaðið fjallaði á dögum ítarlega um stöðu fyrirtækisins . Þar kom meðal annars fram að tap ISAL á árunum 2012-2015 stefndi í um tíu milljarða króna.

Í tilkynningunni frá ISAL í dag segir að málið hafi strandað á kröfu verkalýðsfélaga um að verktakar og þjónustufyrirtæki verði áfram látin greiða laun samkvæmt kjarasamningi ISAL þegar unnið er í Straumsvík. ISAL segir slíkt fyrirkomulag ekki vera venju á íslenskum vinnumarkaði.

„Haft var eftir forsvarsmanni verkalýðsfélags í fjölmiðlum í morgun að stóri vandinn í þessari deilu væri sá, að móðurfélag álversins væri ekki í neinum tengslum við íslenskan veruleika. En því er einmitt öfugt farið: Fyrirtækið fer fram á að nálgast þau skilyrði sem almennt gilda á íslenskum vinnumarkaði. Deilan strandar á því að fyrirtækinu er meinað að búa við íslenskan veruleika,“ segir í tilkynningunni.