Rúmlega 2.500 fluttust frá landinu á þriðja ársfjórðungi í ár og um 2.000 manns fluttu til þess samkvæmt tölum Hagstofunnar. Flutningsjöfnuður var því neikvæður um 500 manns.

Í morgunkorni greiningar Íslandsbanka segir að það komi nokkuð á óvart að flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara sé jákvæður um ríflega 400 manns á þriðja ársfjórðungi. Því megi rekja neikvæðan flutningsjöfnuð einkum til íslenskra ríkisborgara.

„Þannig voru brottfluttir íslenskir ríkisborgarar ríflega 900 manns fleiri en aðfluttir. Virðist því erlendum ríkisborgurum enn þykja Ísland eftirsóknarverður staður til þess að búa þrátt fyrir það mikla efnahagslega tjón sem landið hefur orðið fyrir,“ segir í morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Landsmönnum fjölgar

Um 318.200 manns bjuggu á Íslandi í lok þriðja ársfjórðungi. Það er um 300 fleiri en bjuggu á landinu í lok annars ársfjórðungs.

„Þetta skýrist einkum af því að á sama tíma og íbúum fækkar hér á landi í kjölfar fólksflutninga til og frá landinu þá er náttúrleg fjölgun hér á landi að aukast. Þannig hefur fæðingum fjölgað í kjölfar kreppunnar, en alls fæddust 1.300 börn hér á landi á þriðja ársfjórðungi en dánir voru tæplega 500. Breytingar eru því að verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar í kreppunni og er þjóðin að yngjast, þ.e. meðalaldurinn er að lækka.“