Kim Kardashian og Jim Sammons, fyrrum meðeigandi hjá Carlyle Group, eru að setja á fót nýjan framtakssjóð (e. private-equity fund) sem fær nafnið SKKY Partners. Wall Street Journal greinir frá.

Kardashian og Sammons hyggjast einbeita sér að fjárfestingum í neytendavörum, hóteliðnaðinum, lúxusgeiranum, stafrænum verslunum, fjölmiðlafyrirtækjum og skemmtanaiðnaði. Þau stefna á að ljúka fyrstu fjárfestingunni fyrir lok þessa árs.

Kardashian, sem er hvað þekktust fyrir raunveruleikaþættina Keeping Up With the Kardashians, hefur byggt upp eigið viðskiptaveldi. Skims, undirfatafyrirtækið sem hún stofnaði árið 2019, var nýlega metið á 3,2 milljarða dala. Í ár fór hún af stað með húðverndarvörur með vörumerkinu SKKN By Kim.

Kim segir að hugmyndin um að vinna náið með frumkvöðlum og hjálpa þeim að byggja upp fyrirtækin þeirra í gegnum SKKY hafi heillað hana.

Sjá einnig: Kim Kardashian og Apple saman í eina sæng

Sammons er þekktastur fyrir að fjárfesta í vinsælum vörumerkjum á borð við Beats By Dre og fatamerkinu Supreme. Hann hætti hjá Carlyle í lok júlí eftir að 16 ára starf. Sammons segir að hann hafi fyrst kynnt Kim og móður hennar, Kris Jenner, hugmyndinni að nýjum framtakssjóði fyrir fimm árum. Sammons segir að Jenner verði einnig meðeigandi í SKKY.