KPMG á Íslandi jók tekjur sínar um 15,8% á síðasta rekstrarári, sem lauk í lok september á síðasta ári, og voru þær um 6,8 milljarðar króna. Félagið hagnaðist um 566 milljónir og jókst hagnaður um 7,4% milli ára.

Þá námu rekstrartekjur KPMG Law 877 milljónum króna á árinu og rúmlega tvöfölduðust milli ára. Hagnaður KPMG Law nam 60 milljónum króna á síðasta rekstrarári, samanborið við 11 milljónir króna árið áður.

Eignir KPMG á Íslandi námu 2,6 milljörðum í lok síðasta rekstrarárs og eigið fé 774 milljónum.

Greiddur var út 490 milljóna arður til hluthafa á síðasta rekstrarári en stjórn félagsins leggur til að 559 milljónir verði greiddar til hluthafa á árinu 2024 vegna ársins 2023.

„Við höfum á nýliðnu ári séð áþreifanlegan árangur af stefnumótun félagsins og skýrri og sameiginlegri sýn um arðbæran vöxt á öllum meginsviðum rekstrarins og munum við halda áfram ótrauð á þeirri braut. Aukin áhersla okkar á samvinnu milli sviða og breiðari nálgun þjónustu okkar gagnvart viðskiptavinum hefur gefist vel. Það er okkur mikilvægt að okkar vinna hafi skýran tilgang og sé jákvætt hreyfiafl fyrir viðskiptalífið,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.