Tilnefnd til íþróttamanns Seltjarnarness fyrir árið 2007 voru Anna Kristín Jensdóttir, sund, Snorri Sigurðsson, frjálsar íþróttir, Eva Margrét Kristinsdóttir, handknattleik, Skúli Jón Friðgeirsson, knattspyrna, Ausé Vysniauskaite, handknattleik.

Fyrir valinu urðu Anna Kristín Jensdóttir, sund og Snorri Sigurðsson, frjálsar íþróttir.

Anna Kristín Jensdóttir hefur æft sund hjá Íþróttafélagi fatlaðra, ÍFR sl. átta ár. Allt frá því hún byrjaði að æfa sund hefur hún tekið hröðum framförum og unnið til fjölda verðlauna bæði hérlendis og erlendis. Síðastliðið ár var viðburðaríkt hjá Önnu Kristínu en hún hampar nú 6 Íslandsmetum og 4 Íslandsmeistaratitlum. Anna á eitt Norðurlandamet. Anna Kristín stundar nám við Valhúsaskóla og mun ljúka 10. bekk í vor. Anna Kristín hefur lagt afar hart að sér við æfingar og keppni auk þess að vera góð fyrirmynd ungra og upprennandi íþróttamanna.

Snorri Sigurðsson er einn efnilegasti hlaupari landsins um þessar mundir og er afar öflugur og upprennandi frjálsíþróttamaður. Snorri  hefur sett fjöldann allan af Íslandsmetum á undanförnum misserum auk þess að hafa unnið til margra annarra verðlauna. Snorri stundar nám við MR. Snorri leggur afar hart að sér við æfingar og keppni auk þess að vera góð fyrirmynd ungra íþróttamanna.

Ungir og efnilegir íþróttamenn

Ásamt kjöri íþróttamanns ársins voru eftirfarandi viðurkenningar veittar til ungra og efnilegra íþróttamanna fyrir ástundun og árangur.

Veittar voru viðurkenningar fyrir ungt og upprennandi íþróttafólk sem t.d. hefur náð þeim áfanga að leika með unglingalandsliðum eða landsliði sinnar íþróttagreinar.

Félagsmálafrömuðir

Veittar voru viðurkenningar fyrir vel unnin störf í þágu æskulýðs- og tómstundamála þ.e.a.s. félagsstörf. Þessir einstaklingar eru jákvæðar fyrirmyndir, leiðandi í félagsstarfi og búa yfir góðri samskiptatækni. Íþrótta- og tómstundaráð telur að þessi málaflokkur sé ákaflega mikilvægur.

Æskulýðsverðlaun hljóta Pétur Gunnarsson – Kristjana Zoega – Jóhannes Hilmarsson og Rannveig Smáradóttir fyrir vel unnin félagsstörf á Seltjarnarnesi.