*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Innlent 29. apríl 2020 10:41

Kynnisferðir segja upp 40% starfsmanna

150 starfsmönnum rútufyrirtækisins sagt upp í dag, þar á meðal öllum á söluskrifstofu, afgreiðslu og bílaleigu.

Ritstjórn
Björn Ragnarsson er framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Eva Björk Ægisdóttir

Rútufyrirtækið Kynnisferðir hefur sagt upp 150 starfsmönnum, eða sem samsvarar 40% af starfsmannafjöldanum í dag að því er Morgunblaðið greinir frá. Þannig hefur öllum starfsmönnum á söluskrifstofu, þjónustu- og skrifstofuveri og í afgreiðslu verið sagt upp, sem og öllum starfsmönnum bílaleigu Kynnisferða.

Auk þess ná uppsagnirnar til 50 starfsmanna hjá almenningsvögnum Kynnisferða og 20 hjá hópbifreiðum félagsins, en aðeins nokkrir úr þeirri deild halda starfinu en færast yfir í akstur almenningsvagna.

Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferðina segir daginn erfiðan, en frekari uppsagnir séu mögulegar um næstu mánaðarmót.

„Við munum nota maímánuð til að ræða við hópferðabílstjórana og athuga hvort þeir eru tilbúnir í að koma yfir í strætóakstur og ef það eru einhverjir sem treysta sér ekki í það þá verður það bara að vera þannig,“ segir Björn sem segir þá sem sagt er upp núna hafa forgang í að koma til baka.

„Við viljum leita til þessa fólks, ef það er ekki komið annað, að koma aftur til starf hjá félaginu þegar það rofar til. En óvissan er svo mikil og því getum við ekki annað en sagt upp fólki.“