Kröfuhafar í CB Holding, eignarhaldsfélag West Ham, hafa samþykkt að leggja félaginu til fimm milljónir punda eða ríflega einn milljarð króna.

Breska blaðið Telegraph greindi frá þessu um helgina og var þar sagt frá því að það væri Straumur banki sem legði til fjármagnið.

Kröfu í Hansa, sem átti West Ham, áttu MP Banki, Byr, Landsbankinn og Grettir fjárfestingarfélag. Straumur á 70% hlut í CB Holding og hefur leitt starfið í kringum West Ham.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Georg Andersen, talsmaður Straums, að það væri stefna félagsins að tjá sig ekki um hvort það væri að styðja við félög í þeirra eigu.

Samkvæmt frétt Telegraph standa skuldir West Ham nú í 38 milljónum punda, sem er talið viðráðanlegt í ljósi þess að West Ham veltir í kringum 90 milljónum punda á ári.