Íslensk knattspyrnufélög seldu  56 íslenska leikmenn erlendis fyrir samtals 837 milljónir króna á árunum 2019- 2022. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu KSÍ og Deloitte um fjármál íslenskrar knattspyrnu sem verður kynnt í höfuðstöðvum KSÍ í dag, þann 27. apríl.

Skýrslan inniheldur greiningar á félögum sem tekið hafa þátt í keppni Bestu deildar karla og kvenna á árunum 2019-2022. Tekjuliðir og gjöld félaganna hafa verið greind og rýnt í ýmis atriði, en gögn skýrslunnar byggja á gögnum sem félögin skila í leyfisskrá KSÍ.

Meðalverð íslenskra sóknarmanna sem seldir hafa verið erlendis nemur 18 milljónum króna. Eftir því sem farið er neðar á völlinn lækkar meðalverðmiði leikmanna.

Þannig er meðalverð miðjumanna 17 milljónir króna og varnarmanna 12 milljónir króna. Meðalverð íslenskra markvarða sem hafa verið seldir erlendis nemur 2 milljónum króna á tímabilinu. Þó þarf að hafa í huga að einungis tveir markmenn voru seldir á árunum 2019-2022.

„Þessar tölur eru einungis fasta upphæðin sem greidd er fyrir leikmennina. Þarna á eftir að taka inn í myndina allar þær klásúlur um framtíðargreiðslur sem oftast eru í þessum samningum,“ segir Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur KSÍ.

Haukur Hinriksson er yfirlögfræðingur KSÍ.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Haukur bætir við að það sé mjög algengt að félögin semji um ákveðna fasta upphæð (e. fixed transfer fee) sem getur síðan hækkað talsvert ef leikmaðurinn nær tilteknum skilyrtum árangri með sínu nýja félagi.

„Til dæmis ef leikmaðurinn nær að spila tiltekinn fjölda leikja með aðalliði viðkomandi félags eða jafnvel leiki með landsliði. Einnig getur fast verð hækkað ef leikmaður framlengir samning sinn við nýtt félag eða skorar ákveðið mörg mörk með aðalliði. Eins er mjög algengt í þessum félagaskiptasamningum þar sem ungir íslenskir leikmenn eru keyptir út að það sé svokallað „sell-on fee“ þar sem íslenska liðið fær ákveðna prósentu af næstu sölu. Það er allur gangur á þeirri prósentu og er hún oft á tíðum milli 10 og 15%. Hæsta prósentan sem ég hef séð í þessum íslensku sölum er 22,5%,“ bætir Haukur við.

Nánar er fjallað um skýrslu KSÍ og Deloitte í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.