Verð­bréfa­söfn líf­eyris­sjóða í Banda­ríkjunum hafa tekið miklum breytingum síðustu tvö ár. Sam­kvæmt The Wall Street Journal jókst hluta­bréfa­eign líf­eyris­sjóða til muna sl. ár er hluta­bréfa­markaðurinn reyndist ó­venju sterkur þrátt fyrir hækkandi vexti.

Nú eru sjóðirnir hins vegar byrjaðir að selja bréf í stórum stíl og virðast líf­eyris­sjóðir starfs­manna í einka­geiranum vera að leita mikið í skulda­bréf á meðan líf­eyris­sjóðir opin­berra starfs­manna eru að leita önnur mið eins og eigna­stýringu sem og skulda­bréf.

Stærsti líf­eyris­sjóður Banda­ríkjanna, líf­eyris­sjóðir opin­berra starfs­manna í Kali­forníu, stefnir að því að selja hluta­bréf fyrir 25 milljarða Banda­ríkja­dali á næstunni.

Gold­man Sachs á­ætlar að líf­eyris­sjóðir muni selja hluta­bréf fyrir um 325 milljarða Banda­ríkja­dali á þessu ári, sem sam­svarar um 46 þúsund milljörðum króna á gengi dagsins. Mun það vera tölu­verð hækkun úr 191 milljörðunum sem selt var fyrir í fyrra.

Líkt og aðrir fjár­festar vestan­hafs hafa líf­eyris­sjóðir verið að að­lagast há­vaxtar­um­hverfinu þar sem á­hættu­litlar fjár­festingar í skulda­bréfum geta skilað góðri arð­semi. Væntingar um vaxta­lækkanir á árinu hafa farið dvínandi er verð­bólgan vestan­hafs heldur á­fram að vera þrá­lát.

Stjórn al­menna líf­eyris­sjóðsins í New York borg, sem slökkvi­liðs- og lög­reglu­menn greiða í meðal annars, á­kvað í byrjun mánaðar að minnka hluta­bréfa­eign sjóðsins úr 47% í 39%.

Sam­kvæmt WSJ ætlar sjóðurinn að fjár­festa í fast­eignum og setja fé í eigna­stýringu. Á­kvörðun stjórnarinnar er þó ekki vegna van­trausts á hluta­bréfa­markaðinum heldur á­kváðu borgar­yfir­völd ný­verið að setja þak á hluta­bréfa­eignir líf­eyris­sjóða.

Sam­bæri­leg þróun er að eiga sér stað í einka­geiranum en stjórn líf­eyris­sjóðs starfs­manna lyfja­fyrir­tækisins John­sons & John­son á­kvað ný­verið að draga úr hluta­bréfa­eign sinni um 4%. Stjórnin á­kvað að fjár­festa frekar í skulda­bréfum.

Á­kvörðun líf­eyris­sjóða um að færa fé í á­hættu­minni eignir gæti þó haft veru­leg á­hrif á á­vöxtun þeirra árinu.