„Staða Seðlabankastjóra er ekki á lausu og þetta er eitthvað sem ég mun vega og meta þegar liggur fyrir hvort af þessu verður," segir Már Guðmundsson hagfræðingur, þegar hann er spurður hvort til greina komi að sækja um stöðu Seðlabankastjóra, verði hún auglýst laus til umsóknar.

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um Seðlabankann. Eitt meginmarkmið þess er að leggja niður bankastjórn Seðlabankans og þar með stöður bankastjóranna þriggja sem þar nú sitja. Í staðinn á að ráða einn bankastjóra að undangenginni auglýsingu.

Már hefur verið sterklega orðaður við nýja bankastjórastöðu, en hann er nú aðstoðarframkvæmdastjóri peninga- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans.

Már segir að komi til þess að að staðan verði auglýst muni það m.a. hafa áhrif á afstöðu hans hversu breiða sátt honum sýnist geta skapast um Seðlabankann í framhaldinu. Þá muni persónulegir hagir hans og tímasetningar einnig skipta máli.

Þegar hann er að lokum spurður hvort stjórnvöld hafi haft samband við hann og nefnt það við hann að hann sækti um stöðuna svarar hann: „Nei."