Samkvæmt nýjustu leigumarkaðskönnun HMS hafa leigjendur á aldrinum 35-44 ára séð hraðari leiguverðshækkanir á síðasta ári. Húsakostur þeirra hefur þar að auki þrengst, erfiðara hefur verið fyrir þá að verða sér út um húsnæði og hefur samningsstaða þeirra gagnvart leigusala versnað.

Á hverju ári lætur HMS framkvæma mælingu á stöðu leigjenda en mælingin felst í spurningakönnun sem borin er undir leigjendur og þeir spurðir um fjárhag, viðhorf, bakgrunn og önnur atriði er varða stöðu þeirra á leigumarkaði.

„Aldrei frá upphafi mælinga könnunar (frá 2015) hefur framboð af hentugu húsnæði mælst jafnlítið og nú, en það hefur lækkað samfellt frá árinu 2020. Í aldursflokknum 35-44 ára er framboðið minna samanborið við aðra aldurshópa sem bendir til þess að hentugt húsnæði fyrir fjölskyldufólk sé af skornum skammti,“ segir í greiningu.

Fram kemur að leiguverð innan aldurshópsins hafi hækkað um 16,8% milli ára, eða frá 180 þúsund krónum í 210 þúsund. Hækkunin er mest innan þess aldurshóps en í heild nemur hækkun meðalleiguverðs 9,2% milli ára.

Hlutfall þeirra sem búa í leiguhúsnæði sem er stærra en 100 fermetrar lækkaði einnig úr 42% niður í 35% frá 2022 til 2023. Meðalfjöldi íbúa á hverju heimili í þessum aldursflokki er einnig 2,8 miðað við meðalfjölda íbúa, sem er 2,2 íbúar á leigumarkaðnum öllum.

„Þróunin frá 2020 hefur verið í þá átt að sífellt fleiri eru í erfiðleikum með að finna núverandi húsnæði en 51% leigjenda fannst erfitt að verða sér úti um húsnæði samanborið við 46% 2022. Í aldurshópnum 35-44 ára segjast 70% svarenda hafa átt erfitt með að verða sér úti um húsnæði en hlutfallið var 55% í síðustu könnun.“