Fyrirtækið Mentor hlaut í morgun Vaxtarsprotann 2008.  Vaxtarsprotinn er viðurkenning veitt af Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís), Samtökum iðnaðarins og Háskólanum í Reykjavík.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, veitti Vilborgu Einarsdóttur framkvæmdastjóra og stofnanda Mentor ásamt öðrum starfmönnum fyrirtækisins Vaxtarsprotann 2008 við athöfn í Grasagarðinum í Laugardal í morgun. Mentor ehf. var stofnað árið 1990. Fyrirtækið hefur það meginhlutverk að leggja skólasamfélaginu til lausnir, þekkingu og ráðgjöf til aukins árangurs. Þekktasta lausn þeirra hérlendis er vefurinn mentor.is.  Fyrirtækið starfar einnig í Svíþjóð og Danmörku og er ætlunin að opna starfstöð í Englandi á þessu ári.

Í fréttatilkynningu frá Samtökum iðnaðarins segir að tilgangurinn með veitingu hans sé að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Viðurkenningum var skipt í 2 flokka. Annar flokkurinn innihélt sprotafyrirtæki með veltu á bilinu 10-100 milljónir en þar hlutu fyrirtækin Kine ehf. og Valka ehf. verðlaun.  Hinn flokkurinn innihélt sprotafyrirtæki með veltu á bilinu 100-1000 milljónir og þar hlutu viðurkenningu fyrirtækin Mentor ehf. og Betware hf.

Í tilkynningunni kemur fram að meginviðmið dómnefndar hafi verið hlutfallslegur vöxtur í veltu milli tveggja síðustu ára. Fyrirtækin þurfi að uppfylla skilgreiningu um sprotafyrirtæki, þ.e. að verja meira en 10% af veltu í rannsókna- og þróunarkostnað að meðaltali fyrir bæði árin. Heildarvelta fyrra ársins þurfi að vera yfir 10 milljónum en undir einum milljarði ísl. kr. Einnig þarf frumkvöðullinn/arnir að vera staðar í fyrirtækinu og það má ekki vera að meirihluta í eigu fyrirtækis á aðallista kauphallar eða meðal 100 stærstu fyrirtækja landsins.

Vaxtarsprotinn var fyrst afhentur í fyrra en þá hlaut fyrirtækið Marorka hann.  Við sama tækifæri hlutu fyrirtækin Gagarín, Stiki og Stjörnu-Oddi einnig viðurkenningu fyrir góðan vöxt síðustu ár.