Merrill Lynch sendi í gær frá sér neikvæða skýrslu um lánshæfi íslensku viðskiptabankanna, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Fjárfestingabankinn telur að áhætta íslensku bankanna sé vanmetin, lánshæfi þeirra sé ofmetið og ráðleggur fjárfestum að undirvoga skuldabréf þeirra í eignasöfnun sínum, segir greiningardeildin.

Þá telur Merrill Lynch að flokka ætti íslensku bankana með bönkum nýmarkaða (e. emerging markets) frekar en vestur evrópskum bönkum þar sem íslenska hagkerfið svipi meira til slíkra hagkerfa en meira rótgróinna hagkerfa vestur Evrópu.

Auk þess telur Merrill Lynch til að hátt álag á fjármögnun bankanna samanborið við íslenska ríkið sé í átt við það sem gerist á nýmörkuðum.

Merrill Lynch deilir áhyggjum nokkurra annarra matsfyrirtækja af íslensku hagkerfi en telur auk þess upp helstu áhættuþætti bankanna.

Fjárfestingarbankinn telur að íslensku bankarnir standi frammi fyrir greiðslufallsáhættu sem felst í því að þeir hafi treyst mikið á lántöku í fjármögnun sinni og að endurfjármögnunarþörf þeirra á þessu ári og næsta sé rík.

Þá geti minni eftirspurn eftir skuldabréfum þeirra leitt til óhagstæðari fjármögnunarkjara og jafnvel vandamála við fjármögnun núverandi rekstrar auk þess það mun hægja á vexti á næstunni.

Gæði eigna er einnig talið fram sem ástæða til varfærni, meðal annars vegna mikillar skuldsetningar, markaðsáhættu og hraðrar innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn.

Þá dregur Merrill Lynch gæði tekna í efa sökum hás hlutfalls gengismunar og skrifar að bankarnir eigi eftir að sýna fram á að þeir muni geta viðhaldið góðum hagnaði af nýlega keyptum rekstrareiningum.

Krosseignarhald bankanna nefnt sem áhrifaþáttur mögulegra spíraláhrifa.

Rökstuðningur fjárfestingarbankans fyrir hærra álagi á fjármögnun íslensku bankanna er ekki ný af nálinni og er í takt við erlendar gagnrýnisraddir, segir greiningardeildin.

Hlutabréfamarkaðurinn brást skarpt við í morgun og lækkuðu hlutabréf bankanna um allt að 7,5% á tímabili.

Lækkunin hefur að hluta gengið til baka en þegar þetta er skrifað hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 2,1%, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Íslenska krónan hefur einnig veikst talsvert í morgun. Líkur eru því á að lækkun hlutabréfaverðs bankanna sé einnig tengt hagnaðartöku fjárfesta sem fjármagnað hafa stöður sínar með erlendum lánum.