Seðlabanki Svíþjóðar tilkynnti í morgun um eins prósentu stýrivaxtahækkun, úr 0,75% í 1,75%. Um er að ræða mestu hækkun vaxta hjá bankanum í einu skrefi frá því að hann tók upp formlegt verðbólgumarkmið árið 1993.

Sænski seðlabankinn gaf einnig til kynna að hann myndi hækka vexti um hálfa prósentu til viðbótar í nóvember og aftur um 0,25 prósentur í febrúar næstkomandi, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Verðbólga í Svíþjóð mældist 9% í síðasta mánuði og hefur ekki verið meiri frá árinu 1991.

„Verðbólga er of há. Hún grefur undan kaupmætti heimila og gerir bæði fyrirtækjum og heimilum erfiðara fyrir að skipuleggja fjármálin sín. Þörf er á að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar til að ná verðbólgunni aftur niður í [2%] markmiðið,“ segir í tilkynningu bankans.