Það er ekki aðeins á Íslandi þar sem tilfinnanlegur skortur er á tæknimenntuðu starfsfólki. Í fréttaskýringu Financial Times er rætt við nokkra forsvarsmenn stórra framleiðslufyrirtækja í Evrópu og eru þeir sammála um að mjög mikill skortur sé á verkfræðingum og öðru tæknimenntuðu fólki. Þessi skortur muni leiða til þess að fyrirtæki muni að öðru óbreyttu þurfa að flytja fleiri verksmiðjur og rannsóknarstofur til landa eins og Kína og Indlands þar sem framboð af þessu starfsfólki er meira.

Peter Löscher, forstjóri Siemens, segir í samtali við FT að tryggja verði það að menntakerfið skili nemendum þeirri þekkingu sem þeir þurfi að hafa og að búið sé svo um hnútana í innflytjendamálum að vel menntað fólk geti komið til álfunnar. Stærsta vandamálið sem framleiðslugeirinn þurfi að takast á við sé aftur á móti gríðarlega mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks.

Fleiri þröskuldar eru nefndir sem standa í veginum fyrir uppgangi evrópsks iðnaðar í skýringunni. Þar á meðal er hærri raforkukostnaður en í Bandaríkjunum sem og vandamál við fjármögnun smærri fyrirtækja, einkum í löndum eins og Ítalíu og Spáni.

Umkvörtunarefni forstjóranna ríma um margt við það sem talsmenn íslenskra iðnfyrirtækja hafa lengi sagt. Má t.d. nefna það sem Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild HR að um eitt þúsund nýja starfsmenn þurfi árlega í tæknigeiranum hér á landi, en menntakerfið útskrifi hins vegar eðins um 500 manns árlega. Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís, benti á svipaða hluti í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir um ári síðan. Sagði hann að á uppgangsárum bankanna hafi þeir sogað til sín verkfræði- og tölvunarfræðimenntað starfsfólk sem gerði það að verkum að nemendur fóru frekari í rekstrar-, stjórnunar- og peningahliðina á verkfræðináminu í stað tæknihliðarinnar.