Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, hefur eignast 9,2% hlut í samfélagsmiðlinum Twitter en markaðsvirði eignarhlutarins nam 2,9 milljörðum dala við lokun markað á föstudaginn. Hlutabréfaverð Twitter hefur hækkað um 25% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.

Musk, sem er ríkasti maður heims samkvæmt auðmannalista Forbes, er nú orðinn stærsti hluthafi Twitter. Til samanburðar þá fer Jack Dorsey, stofnandi Twitter, með 2,25% hlut í félaginu.

Musk gagnrýndi Twitter fyrir tveimur vikum síðan og spurði fylgjendur sína hvort þeir væru þeirrar skoðunar að Twitter styði við málfrelsi. Hann sagðist einnig vera að íhuga að setja á fót sinn eigin samfélagsmiðil.

„Í ljósi þess að Twitter sé í reynd orðinn einn helsti vettvangur opinberrar tjáningar grafi það undan lýðræðinu í grundvallaratriðum að ekki ríki þar tjáningarfrelsi,“ tísti Musk þann 26. mars síðastliðinn.