Hinn 31. júlí verða greiddir um 19 ma.kr. úr ríkissjóði til heimila. Þar er um að ræða endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins .

Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga. Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2015 vegna tekna árið 2014 nam 1.059 milljörðum króna og jókst um 7,2% frá fyrra ári. Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 276,5 milljörðum króna og hækkar um 6,1% milli ára. Álagður tekjuskattur nemur 42,5% af þeirri fjárhæð og útsvar 57,5%.

Framtaldar eignir heimilanna námu 4.212,9 milljörðum króna í lok síðasta árs og jukust um 5,6% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 3.028,7 milljarðar að verðmæti, eða um 72% af eignum, og jókst verðmæti þeirra um 8,0% á milli ára. Íbúðareigendum fjölgaði um 545 á milli ára eða um 0,6%.

Framtaldar skuldir heimilanna námu 1.767,8 milljörðum króna í árslok 2014 og drógust saman um 1,1% milli ára. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.181,5 milljörðum sem er 0,6% aukning á milli ára. Eigið fé heimila í fasteignum hefur aukist ár frá ári í fjögur ár og samsvarar nú 61% af verðmæti þeirra samanborið við 58% árið áður. Tæplega 26 þúsund af um 95 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess.