Bandaríska olíuvinnslufyrirtækið Halliburton mun segja upp um 6.400 starfsmönnum sínum á næstunni vegna „krefjandi markaðsaðstæðna“. BBC News greinir frá málinu.

Fyrirtækið er það næststærsta sinnar tegundar í heiminum og hefur lækkun olíuverðs frá því í sumar haft töluverð áhrif á starfsemina. Samtals eru starfsmenn þess 80 þúsund talsins og nemur niðurskurðurinn því um 8% af starfsmannaflotanum.

„Við kunnum að meta hvern einasta starfsmann sem við höfum, en því miður er raunveruleikinn sá að niðurskurðaraðgerðir eru nauðsynlegar til þess að koma okkur í gegnum þessar krefjandi markaðsaðstæður,“ sagði í yfirlýsingu frá fyrirtækinu um uppsagnirnar.

Á síðasta ársfjórðungi skilaði fyrirtækið hagnaði upp á 901 milljón Bandaríkjadala, sem var 14% aukning frá sama tímabili ári fyrr. Þrátt fyrir þetta segir fyrirtækið að árið 2015 verði krefjandi fyrir olíuiðnaðinn og séu uppsagnirnar tilkomnar vegna þess.

Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um nær 3% við tíðindin.