Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, hlaut ekki kosningu í stjórn félagsins Glitnir Holdco, sem er arftaki slitastjórnar Glitnis. Hann bauð sig fram til stjórnarinnar og lagði jafnframt til að laun stjórnarmanna yrðu lækkuð um 90% .

Á fundinum í dag gerði hann jafnframt kröfu um að umræðu um hvatakerfi stjórnarinnar yrði ekki tekin til afgreiðslu, þar sem hún hefði ekki verið kynnt sem skyldi í aðdraganda fundarins. Þessari kröfu var hafnað af fundarstjóra.

Óttar fékk stuðning tæplega 8,5% atkvæða á hluthafafundinum í dag og segir Óttar í samtali við Viðskiptablaðið að stuðningurinn hafi verið framar væntingum. „Íslendingar fara með um 5% af atkvæðum á fundinum, þannig að stuðningurinn var meiri en ég bjóst við.“

Óttar er afar gagnrýninn á hvatakerfið og benti á fundinum í dag á að miðað við væntar heimtur af eignum Glitnis Holdco mættu stjórnarmennirnir þrír eiga von á að fá um 4,8 milljarða íslenskra króna samtals í aukagreiðslur.