Ollis Rehn peningamálastjóri Evrópusambandsins telur ekki útilokað að Grikkland þurfi þriðja björgunarpakkann frá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Rehn segir jafnframt að það sé ekki eina leiðin í stöðunni. Til dæmis sé hægt að lengja í lánunum til gríska ríkisins.

Yfirlýsing Rehn kemur í kjölfar þess að Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra Þýskalands sagði að Grikkir þyrftu nýjan björgunarpakka.

Erfiðlega hefur gengið að ná fram þeim sparnaði sem ESB og AGS hafa krafist í Grikklandi. Einnig hafa einkavæðingaráform ríkisstjórnar Grikklands gengið mun hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir.