Raymond J. Quinlan er hættur í stjórn Íslandsbanka. Hann hefur ráðið sig sem aðstoðarforstjóra hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu CIT sem John A. Thain stýrir. Það samræmist ekki lögum í Bandaríkjunum að hann gegni því starfi sem hann hefur nú tekið við, að sitja í stjórn annars fjármálafyrirtækis, og því hefur hann tilkynnt um að hann muni stíga úr stjórninni.

Nýr stjórnarmaður mun taka sæti í stjórn bankans á aðalfundi 29. mars nk.

Quinlan tók sæti í stjórn bankans er hann var reistur á grunni innlendra eigna hins fallna Glitnis.

Quinlan er þekktur í bandarískum bankaheimi. Hann var í yfir þrjátíu ár starfsmaður Citigroup, þar á meðal forstjóri viðskiptabankasviðs bankans á árunum 2005 til 2007.

Quinlan mun þó ekki slíta alveg á tengslin við Íslandsbanka þar sem hann mun verða stjórnarformaður dótturfyrirtækisins Glacier Securities sem er með starfsemi í New York.